Chris Paul skoraði 42 stig, gaf 15 stoðsendingar og stal 6 boltum í leiknum og sýning Paul náði hápunkti sínum í þriðja leikhluta þegar hann henti boltanum upp þrisvar sinnum á 32 sekúndum og Blake Griffin tróð boltanum viðstöðulaust í körfuna í öll þrjú skiptin.
Chris Paul stal boltanum í tvígang á þessum leikkafla og alltaf var Blake Griffin mættur í hraðaupphlaupið til þess að troða með tilþrifum í körfuna. Blake Griffin var með 23 stig og 10 fráköst í leiknum.
Það er hægt að sjá þessa mögnuðu sýningu þeirra Chris Paul og Blake Griffin hér fyrir neðan. Kannski ekkert skrýtið að Mark Jackson, þjálfari Golden State Warriors, vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, þegar myndavélin fór á hann við lok sýningar.