Körfubolti

NBA: Rose með sigurkörfu Chicago Bulls

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Derrick Rose.
Derrick Rose. Mynd/NordicPhotos/Getty
Derrick Rose var hetja Chicago Bulls í NBA-deildinni í körfubolta í nótt í fyrsta heimaleik sínum eftir að hann snéri til baka eftir eins og hálfs árs fjarveru vegna krossbandsslita. Chris Paul átti stórkostlegan leik þegar Los Angeles Clippers vann sinn fyrsta leik á tímabilinu.

Derrick Rose skoraði sigurkörfu Chicago Bulls 5,7 sekúndum fyrir leikslok í 82-81 heimasigri á New York Knicks. Rose skoraði 18 stig í leiknum en klikkaði á 16 af 23 skotum sínum. Luol Deng skoraði 17 stig og Carlos Boozer var með 14 stig.

Chicago Bulls vann fyrsta leikhlutann 26-16 og tók strax frumkvæðið í leiknum en var 9-20 undir í fjórða leikhlutanum þegar Rose skoraði sigurkörfuna og reddaði málunum fyrir sína menn.

Carmelo Anthony skoraði 22 stig fyrir New York og var einnig með 6 fráköst, 6 stoðsendingar og 6 varin skot. Tyson Chandler var með 19 fráköst, 7 stig og 4 varin skot.

Chris Paul skoraði 42 stig og gaf 15 stoðsendingar þegar Los Angeles Clippers vann 126-115 sigur á Golden State Warriors en Clippers-liðið kom sterkt til baka eftir óvænt tap á móti nágrönnum sínum í Lakers í fyrsta leik.

Sýning Paul náði hápunkti sínum í þriðja leikhluta þegar hann henti boltanum upp þrisvar sinnum á 30 sekúndum og Blake Griffin tróð boltanum viðstöðulaust í körfuna í öll skiptin.

Blake Griffin var með 23 stig og 10 fráköst í leiknum, Jamal Crawford skoraði 17 stig og DeAndre Jordan var með 17 fráköst og 9 stig. Stephen Curry var með 39 stig og 9 stoðsendingar hjá Golden State og David Lee skoraði 22 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×