Innlent

Ekki þjónusta við alla vegi

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Hálkublettir og snjóþekja er víða um landið.
Hálkublettir og snjóþekja er víða um landið. mynd/Ása Dóra FInnbogadóttir
Vetrarfærð er í öllum landshlutum og víða er verið að hreinsa vegi samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Vegagerðin vill vekja sérstaka athygli á því að ekki verður þjónusta alla daga vikunnar á öllum vegum. Hún beinir því til vegfarenda, sérstaklega á lengri leiðum, að kynna sér færð, veður og veðurútlit áður en lagt er af stað.

Hálkublettir eru á Sandskeiði og Hellisheiði en snjóþekja í Þrengslunum. Hálka eða snjóþekja er víðast hvar á Suðurlandi en hálkublettir eru á Reykjanesbraut og á Suðurnesjum.

Snjóþekja eða hálka er á velflestum vegum á Vesturlandi. Það snjóar bæði á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku. Þæfingur er á Fróðárheiði.

Þæfingsfærð er á Hálfdáni og hálsunum í Barðastrandarsýslu, og eins á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði en annars er víðast hálka eða snjóþekja Vestfjörðum. Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar.

Á Norður- og Norðausturlandi er víðast hvar nokkur hálka eða snjóþekja. Þæfingsfærð er á Siglufjarðarvegi og Hólasandi.

Sömuleiðis er nokkur hálka eða snjóþekja á velflestum vegum á Austur- og Suðausturlandi. Þungfært er á Háreksstaðaleið en  ófært á Öxi og Breiðdalsheiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×