Þegar er búið að framlengja sýningarleyfinu að utan fyrir Mary Poppins, en það átti að renna út um áramót, og stefnir allt í að sýningin slái nýtt aðsóknarmet áður en yfir lýkur.
Uppfærslan er sú viðamesta og flóknasta sem Borgarleikhúsið hefur nokkru sinni ráðist í – mannmörg og krefjandi dans og söngatriði, hraðar og stórar sviðskiptingar, háskaleg flugatriði og ótal tæknibrellur. Alls eru 50 manns á sviði í Mary Poppins (leikarar, kór, dansarar Íslenska dansflokksins, hljómveit og börn) og mikill fjöldi á bak við tjöldin.
Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Guðjón Davíð Karlsson eru í hlutverkum Mary Poppins og sótarans Bert. Mary Poppins hefur hlotið fádæma lof gagnrýnenda sem áhorfenda og var tilnefnd til átta grímuverðlauna í vor, m.a. sem sýning ársins.