Lengsta taphrina liðs gegn öðru liði í NBA-deildinni tók enda í nótt er Minnesota Timberwolves pakkaði LA Lakers saman í Staples Center.
Úlfarnir voru búnir að spila 22 leiki í röð gegn Lakers án þess að sigra. Það var aftur á móti aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi í nótt.
Úlfarnir slógu félagsmet með því að skora 47 stig í fyrsta leikhluta. Annað eins hefur ekki sést í deildinni í rúm fimm ár. Minnesota skoraði 18 stig í röð á kafla og leiddi þá 44-16. Ótrúlegar tölur.
Kevin Love fór hamförum í liði Úlfanna. Hann skoraði 18 af 25 stigum sínum á fyrstu 12 mínútum leiksins. Hann var einnig með 13 fráköst. Kevin Martin skoraði 27 stig. Ricky Rubio einnig sjóðheitur með 12 stig, 14 stoðsendingar, 10 fráköst og fimm stolna bolta.
Til að bæta gráu ofan á svart hjá Lakers þá fór Steve Nash meiddur af velli hjá liðinu.
Úrslit:
NY Knicks-San Antonio 89-120
Oklahoma-Washington 106-105
Phoenix-New Orleans 101-94
LA Lakers-Minnesota 90-113
