Körfubolti

Kobe samdi við Lakers á ný

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Twitter-síða LA Lakers
Kobe Bryant skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við LA Lakers en talið er að hann verði áfram launahæsti leikmaður deildarinnar.

Forráðamenn Lakers opinberuðu ekki hversu há laun Kobe fær á samningstímanum en samkvæmt bandarískum fjölmiðlum eru samningurinn 48,5 milljóna dollara virði eða 5,9 milljarða króna. Talið er að hann fái 25 milljónir dollara fyrra árið og 23,5 milljónir fyrir það síðara.

Bryant er að klára núverandi samning sinn við Lakers og fær 30,4 milljónir dollara í sinn hlut fyrir þetta tímabilið. Hann er þó frá vegna meiðsla eftir að hafa slitið hásin fyrr á þessu ári.

Hann er 35 ára gamall og er nú nánast tryggt að hann muni spila allan sinn feril hjá Lakers. Charlotte Hornets valdi Bryant í nýliðavalinu árið 1996 en hann var sendur strax til Los Angeles í skiptum fyrir Vlade Divac.

„Það á sér engin fordæmi að spila í NBA-deildinni í 20 ár og alltaf með sama liðinu. Það er  ótrúlegt afrek,“ sagði í yfirlýsingu Lakers í dag. „Það sem meira máli skiptir er að þetta tryggir að einn besti körfuboltamaður heims verði áfram leikmaður LA Lakers.“

Bryant birti meðfylgjandi mynd á Twitter-síðu sinni, af undirrituðum samningnum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×