Innlent

Flughált víða um land

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Vetrarfærð er í öllum landshlutum og víða skafrenningur og éljagangur.
Vetrarfærð er í öllum landshlutum og víða skafrenningur og éljagangur.
Hiti er að komast upp fyrir frostmark á láglendi, fyrst vestan til og síðar í dag einnig fyrir norðan og austan. Flughálka verður víða við þessar aðstæður þar sem þjappaður snjór er fyrir á vegum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Vetrarfærð er í öllum landshlutum og víða skafrenningur og éljagangur. Flughálka er nú á Bröttubrekku og í Þistilfirði. Hálka er nú á Hellisheiði en annars er hálka, hálkublettir eða snjóþekja mjög víða á Suðurlandi, sérstaklega í uppsveitum.

Á Vesturlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum. Flughált er á Bröttubrekku. Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum, éljagangur nokkuð víða og skafrenningur á fjallvegum. Ófært er á Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði.

Áframhaldandi hálka, hálkublettir eða snjóþekja er svo á Norðurlandi og éljagangur nokkuð víða. Flughált er nú í Þistilfirði.

Á  Austurlandi er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum og einnig skafrenningur á Möðrudalsöræfum. Ófært er á Breiðdalsheiði og þungfært á Öxi. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er svo með suðausurströndinni alveg suður úr.

Þá vara Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×