Körfubolti

Houston Rockets fyrst til að vinna í San Antonio | Myndband

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Harden fór á kostum í nótt
Harden fór á kostum í nótt nordic photos/getty
Houston Rockets varð í nótt fyrst liða til að vinna San Antonio Spurs í San Antonio þegar Rockets vann baráttu Texas-liðanna 112-106 í NBA körfuboltanum í Bandaríkjunum. Alls voru sjö leikir í NBA í nótt.

Houston Rockets glutraði niður 23 stiga forystu í San Antonio í nótt en það kom ekki að sök því James Harden skoraði 16 stig í fjórða leikhluta og þarf af þriggja stiga körfu sem jafnaði leikinn 106-106 þegar mínúta var eftir en Rockets skoraði níu síðustu stig leiksins.

Harden skoraði alls 31 stig í leiknum og Chandler Parsons 25 stig. Dwight Howard skoraði 13 stig auk þess að taka 11 fráköst og Terrence Jones hirti 16 fráköst auk þess að skora 10 stig.

Tony Parker fór fyrir San Antonio Spurs og skoraði 27 stig, tók 6 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Tim Duncan skoraði 20 stig og Marco Belinelli 18 af bekknum.

Af öðrum leikjum bar helst til tíðinda að Washington Wizards náði sínum besta árangri í nóvember í 29 ár með því að leggja Atlanta Hawks að velli 108-101 í Washington.

Wizards tapaði þremur fyrstu leikjum sínum á tímabilinu og sjö af fyrstu níu en nú hefur liðið unnið sex af átta síðustu leikjum sínum og vann liðið alls átta leiki í nóvember í fyrsta sinn síðan 1984.

John Wall fór á kostum fyrir Wizards í leiknum. Hann skoraði 26 stig, gaf 12 stoðsendingar, tók 6 fráköst og stal 5 boltum. Trevor Ariza skoraði 24 stig en allir byrjunarliðsleikmenn liðsins skoruðu 12 stig eða meira.

Ein af glæsilegustu tilþrifum gærkvöldsins komu í viðureign Boston Celtics og Millwaukee Bucks. Giannis Antetokoumpo varði þá skot Boston manna með tilþrifum, brunaði í sókn og tróð með tilþrifum. Augnablikið má sjá hér að neðan.

Paul Millsap fór fyrir Hawks með 23 stig og 10 fráköst og Al Horford skoraði 16.

Öll úrslit næturinnar:

Washington Wizards – Atlanta Hawks 108-101

Cleveland Cavaliers – Chicago Bulls 97-93

Memphis Grizzlies – Brooklyn Nets 88-97

Dallas Mavericks – Minnesota Timberwolves 106-112

San Antonio Spurs – Houston Rockets 106-112

Phoenix Suns – Utah Jazz 104-112

Milwaukee Bucks – Boston Celtics 92-85

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×