Innlent

Jólalegt á höfuðborgarsvæðinu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Mynd/Vilhelm
Það er jólalegt í Reykjavík og nágrenni þessa stundina þar sem kyngdi niður snjó í dag.

Vakthafandi veðurfræðingur Veðurstofunnar segir að éljagangur hafi verið á höfuðborgarsvæðinu í dag, mest suð-vestan til en minna á Reykjanesinu og Snæfellsnesinu.

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur sagði í samtali við Vísi að það fari að kólna á morgun og fari hitinn víðast hvar niður fyrir frostmark.

Hún segir lægðir á sveimi í kringum landið, en enginn stormur eða slíkt í kortunum en mjög vont veður er núna í Færeyjum.

Hún segir einnig að mjög lítil breyting verði á veðrinu á landinu almennt til morguns, þó mögulega snúist í skammvinna norðanátt kannski austast á morgun. Ólíklegt er að því fylgi úrkoma.

Aðspurð um jólaveðrið vildi hún lítið segja en Norðmenn spá mikilli snjókomu 23. desember, á Þorláksmessu, og því mögulegt að jólin verði hvít í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×