Emil Hallfreðsson var í byrjunarliði Hellas Verona sem vann öruggan 4-1 sigur á Lazio á heimavelli í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Þá unnu toppliðin Juventus og Roma bæði örugga sigra.
Emil byrjaði leikinn á miðjunni en var tekinn útaf þegar korter var eftir af leiknum í stöðunni 3-1. Nýliðarnir í Verona eru í evrópusæti eftir leiki dagsins en geta misst Inter fram úr sér í kvöld þegar Inter mætir AC Milan í Mílanó-borgarslagnum.
Juventus lenti í basli með Atalanta í fyrri hálfleik en þrjú mörk í seinni hálfleik tryggðu öruggan sigur, Carlos Tevez, Paul Pogba, Arturo Vidal og Fernando Llorente sáu um markaskorun meistaranna. Með sigrinum fer Juventus í jólafríið með fimm stiga forskot á Roma í öðru sæti og tíu stiga forskot á Napoli í því þriðja.
Rómverjar eru enn taplausir eftir sautján leiki og hafa nú unnið tvo af síðustu þremur leikjum eftir fjögur jafntefli í röð í leikjunum þar á undan. Catania var engin fyrirstaða fyrir Roma sem vann leikinn örugglega 4-0.
Birkir Bjarnason kom inná í uppbótartíma í 1-1 jafntefli Sampdoria gegn Parma. Birkir fékk aðeins örfáar sekúndur en þetta er þriðji leikurinn í röð sem Birkir byrjar á bekknum. Sampdoria situr í fjórtanda sæti eftir liki dagsins, fjórum stigum frá fallsæti.
Úrslit dagsins:
Bologna 1-0 Genoa
AS Roma 4-0 Catania
Atalanta 1-4 Juventus
Sampdoria 1-1 Parma
Sassuolo 0-1 Fiorentina
Torino 4-1 Chievo
Verona 4-1 Lazio
