Andy Murray og David Beckham voru ekki á lista þeirra sem verða sæmdir riddaratign af Elísabetu Englandsdrottningu í dag.
Murray varð á árinu fyrsti Bretinn til að vinna Wimbledon-mótið í tennis í 77 ár og þá lagði David Beckham skóna á hilluna eftir gæfuríkan 20 ára feril.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, var einn þeirra sem taldi að Murray ætti sérstaklega skilið að hljóta riddaratign en hann var valinn íþróttamaður ársins í Bretlandi þetta árið.
„Ég veit ekki um neinn sem ætti það frekar skilið,“ sagði Cameron skömmu eftir sigur Murray í sumar. „Sigur hans færði þjóðinni mikla gleði.“
Beckham er einn þekktasti knattspyrnumaður heims hin síðari ár og spilaði stórt hlutverk í því að fá Ólympíuleikana til Lundúna á sínum tíma.
Murray fékk heiðursorðu bresku krúnunnar í fyrra og Beckham árið 2003. Það er sjálfstæð nefnd sem stendur að valinu hverju sinni.

