Körfubolti

NBA í nótt: LeBron vann á afmælisdaginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
LeBron James, sem fagnaði 29 ára afmæli sínu í gær, skoraði 26 stig í sigri sinna manna í Miami Heat á Denver Nuggets í NBA-deildinni í körfubolta.

Miami vann, 97-94, þrátt fyrir að Dwayne Wade og Norris Cole hafi báðir farið meiddir af velli í leiknum.

James var sjálfur að glíma við meiðsli í nára en hann spilaði engu að síður leikinn. Chris Bosh skoraði sautján stig og Ray Allen þrettán.

Þetta var níundi sigur Miami í síðustu ellefu leikjum liðsins en sjöunda tap Denver í röð.

New Orleans vann Portland, 110-108, þar sem að Tyreke Evans skoraði sigurkörfuna þegar 1,2 sekúndur voru eftir af leiknum. Damien Lillard var þá nýbúinn að jafna metin fyrir Portland með þriggja stiga körfu.





Dallas vann Minnesota, 100-98, eftir magnaða endurkomu í síðari hálfleik. Minnesota hafði nítján stiga forystu að loknum fyrri hálfleiknum.

Shawn Marion fór mikinn í liði Dallas og skoraði 32 stig, þar af tvær mikilvægar þriggja stiga körfur í fjórða leikhluta. Dirk Nowitzky bætti við sextán stigum.

Kevin Love átti frábæran leik fyrir Minnesota en það dugði ekki til. Hann skoraði 36 stig, tók ellefu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Love kom Minnesota yfir með þriggja stiga körfu þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum en Dallas reyndist sterkari að lokum.

Úrslit næturinnar:

Detroit - Washington 99-106

Memphis - Chicago 91-95

Minnesota - Dallas 98-100

New Orleans - Portland 110-108

Denver - Miami 94-97

Utah - Charlotte 83-80

LA Clippers - Phoenix 88-107

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×