Skoðun

Atvinna eykst í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson skrifar
Nýjar tölur sem unnar hafa verið af Hagstofu Íslands sýna að störfum hefur fjölgað um 3.000 í Reykjavík frá árinu 2010. Á sama tíma hefur dregið hraðar úr atvinnuleysi í Reykjavík en í landinu í heild, ef litið er til meðaltals. Flest hafa þessi nýju störf orðið til á almennum markaði. Reykjavíkurborg hefur stutt við þessa jákvæðu þróun eftir megni með ákvörðunum sínum og stefnumótun. Ný atvinnustefna borginnar miðar að því að auka fjárfestingu í fjölbreyttu atvinnulífi, efla ferðaþjónustu, þekkingariðnað, skapandi greinar og græna hagkerfið. Þetta höfum við meðal annars gert frá 2010:

Í fyrsta lagi var yfirstandandi framkvæmdum borgarinnar flýtt um leið og nýr meirihluti tók við völdum 2010. Einnig var ákveðið að efna til fjárfestingarátaks árin 2011-13 að jafnvirði 6,5 milljarða á ári. Fyrir vikið hefur verið hægt að flýta byggingu nýrra skóla, hjólreiðastíga og endurgera götur og sundlaugar svo fátt eitt sé nefnt.

Ferðaþjónusta stærsti þátturinn

Í öðru lagi lagði Reykjavíkurborg fram fé til markaðssetningar í ferðaþjónustu í samstarfi við ríkið og fyrirtæki í ferðaþjónustu undir merkjum Inspired by Iceland. Sömuleiðis var stofnuð Ráðstefnuskrifstofa Reykjavíkur með Icelandair, Hörpu og fleiri fyrirtækjum til að fjölga stórviðburðum og efla ráðstefnuhald í borginni. Ferðaþjónusta er líklega sú grein atvinnulífsins sem á stærstan þátt í fjölgun starfa í borginni.

Í þriðja lagi hefur skipulagi víða verið breytt í takt við nýjar áherslur eftir hrun og til að mæta breyttri eftirspurn. Skipulag styður nú sérstaklega við byggingu lítilla og meðalstórra íbúða miðsvæðis í Reykjavík og uppbyggingu leigumarkaðar. Til að fylgja eftir vexti ferðaþjónustu er uppbygging hótel- og gistirýma jafnframt allvíða í undirbúningi.

Í fjórða lagi hefur verið ýtt undir fjárfestingu í sjávarútvegi með lóðaúthlutun fyrir nýja frystigeymslu HB-Granda og endurnýjun lóðaleigusamninga fyrir Brim. Hafnirnar hafa einnig lagt fram húsnæði fyrir sprotafyrirtæki undir merkjum Sjávarklasans í Bakkaskemmu (við Kaffivagninn). Þá er staðinn vörður um hafnarstarfsemi og sjósókn í nýju skipulagi gömlu hafnarinnar.

Í fimmta lagi hefur verið unnið að skipulagi nýs Landspítala og unnið þétt með Háskóla Íslands til að stuðla að byggingu Vísindagarða við HÍ. Vatnsmýrarsvæðið er hjarta þekkingarhagkerfisins á Íslandi og á gríðarleg sóknarfæri sem borgin vill nýta.

Störf í stað bóta

Í sjötta lagi hefur verið unnið markvisst að því að bjóða hundruðum langtímaatvinnulausra Reykvíkinga störf í stað bóta í samvinnu við Vinnumálastofnun og aðila vinnumarkaðarins. Svipuð úrræði hafa verið þróuð fyrir ungt fólk án bótaréttar.

Þá er þess ógetið að kvikmyndagerð og skapandi greinar hafa verið í miklum vexti. Þar á borgin raunar minnstan þátt en skattaívilnanir vegna kvikmyndagerðar ásamt blómlegri grasrót framsækinna fyrirtækja hefur skipt meginmáli. Búast má við enn frekari blóma í kvikmyndagerð með tvöföldun Kvikmyndasjóðs í fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Á næstu árum þarf að sækja enn frekar fram í atvinnumálum og skapa upprennandi kynslóðum fyrsta flokks lífsskilyrði og spennandi tækifæri. Í því mun Reykjavík ekki láta sitt eftir liggja. Borgin vill axla hlutverk sitt sem höfuðborg og varða leiðina út úr kreppunni með því að stuðla að fjárfestingu í fjölbreyttu og spennandi atvinnulífi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×