Innlent

Sat í fjögur og hálft ár í fangelsi - Íhugar að sækja bætur

Guðjón Skarphéðinsson
Guðjón Skarphéðinsson
Hafið er yfir allan skynsamlegan vafa að framburður allra sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum hafi verið óáreiðanlegur. Ekki átti að leggja þá til grundvallar. Sálfræðingar segja líklegt að þeir hafi „hvergi komið þar nálægt“.

„Ég get ekki mikið sagt þegar svona stórmenni komast að þessari niðurstöðu og er því í vandræðum með að mótmæla þeim,“ segir Guðjón Skarphéðinsson, sóknarprestur á Staðastað. Hann sat í fjögur og hálft ár í fangelsi fyrir aðild sína að Geirfinnsmálinu.

Í skýrslu nefndarinnar segir að það sé hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburður Guðjóns, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, hafi verið falskur.

Spurður hvort til greina komi að sækja bætur fyrir vistina á Kvíabryggju, segist Guðjón ekki vera kominn svo langt í lífinu að vera búinn að ákveða það.

„Ég kann ekkert á peninga, en er það ekki venjan að mál fari einhverja svoleiðis leið? En ég get svo sem ekkert sagt um hvenær eða hvernig ég geri það. Ég er ekki með neinn lögfræðing, hann er dáinn og bróðir hans sem síðan varð lögfræðingurinn minn er líka dáinn, svo ég þori varla að biðja þann þriðja,“ segir Guðjón. „Ég geri ráð fyrir því að fólkið sem var þarna líka muni hafa uppi einhverjar aðgerðir og síðan muni þetta fljóta sína leið.“

Guðjón segir það ekki nýjar fregnir að framburður hans í málinu á sínum tíma hafi verið falskur, en hann efast um að hann muni lesa skýrsluna. „Ég hef enga ástæðu til að lesa þessa skýrslu, ég hef hana ekki undir höndum og þótt ég fengi hana efast ég um að ég myndi nenna að lesa hana.“- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×