Kleppur er hér enn Mikael Torfason skrifar 22. apríl 2013 07:00 Englar alheimsins, sem nú eru til sýningar í Þjóðleikhúsinu, fá fullt hús í Fréttablaðinu í dag; fimm stjörnur. Uppsetning Þorleifs Arnar Arnarssonar, leikstjóra sýningarinnar, er stórbrotin og svo miklu meira en bara leiksýning. Þarna er sett á stóra svið Þjóðleikhússins túlkun leikhópsins á skáldsögu Einars Más Guðmundssonar og einnig kafað ofan í tilurð bókarinnar. Þá eru viðbrögð okkar samfélags við bókinni krufin; til dæmis að gera úr bókinni bíómynd. Hún er krufin og afstaða okkar til myndarinnar sömuleiðis. Þessu er svo öllu hlaðið ofan á hugmyndir okkar um geðsjúka, þeirra heim og okkar, þannig að eftir situr stórkostlegt listaverk sem byggir á þessari merkilegu sögu sem snertir okkur öll. Saga Einars Más hefur lengi haft mikil áhrif á okkur Íslendinga. Við vitum öll að Kleppur er víða. Í dag er jafnvel hægt að fullyrða að Kleppur sé alls staðar á Íslandi. Við erum sögð eiga tilkall til heimsmeta í áti á ákveðnum geðlyfjum. Það segir sína sögu. Í Englum alheimsins er sögð saga klepparans, manneskju sem missir vitið og á ekki afturkvæmt. Við skulum hafa í huga að sú saga er ekki úr fjarlægri fortíð. Hún á enn fullt erindi því þótt margt hafi breyst til batnaðar virðist ástandið ekkert batna. Þegar skáldsagan Englar alheimsins kom út fyrir tuttugu árum voru tólf hundruð Íslendingar yfir sjötíu og fimm prósent öryrkjar vegna geðsjúkdóma. Þetta var fólkið á örorkubótunum eða listamannalaunum, eins og Páll í Englunum kallar bæturnar. Í dag telur þessi fyrrnefndi hópur yfir sex þúsund manns. Það eru jafn margir og búa á Selfossi. Kleppur er hér enn og hann hefur stækkað mikið. Á Kleppi sjálfum, sjúkrahúsinu, hefur vissulega margt breyst síðustu áratugi. Það er samt hryllileg staðreynd að fjórir af hverjum fimm sjúklingum á Kleppi eru fastir þar þótt þeir hafi lokið meðferð. Þetta eru einstaklingar sem er ekki hægt að útskrifa á götuna heldur þyrftu á sérstöku búsetuúrræði að halda. Þetta er verst setti sjúklingahópurinn. Eftir sex mánuði á sjúkrahúsi missa sjúklingar örorkubæturnar og læsast inni í vítahring sem fáum tekst að rjúfa. Flestir þessara sjúklinga eru á aldrinum 20 til 40 ára. Þetta er ungt fólk sem á skilið betra. Í Fréttablaðinu í fyrra kom fram að tuttugu einstaklingar væru fastir á Kleppi eftir að hafa lokið endurhæfingu. Ástandið hér á suðvesturhorninu er verst hjá þeim sjúklingum sem eiga lögheimili annars staðar en í Reykjavík eða Reykjanesbæ. Í fréttum okkar í fyrra var Halldór Kolbeinsson, yfirlæknir á Kleppi, harðorður í garð sveitarfélaganna og sagði þau standa mjög illa að málefnum geðfatlaðra. Við getum gert svo miklu betur. Saga Einars Más, sem hann byggði á ævi bróður síns, Pálma Arnar, kemur okkur enn við. Bæði á bókasafninu, í bíómyndinni, í Þjóðleikhúsinu og úti í þjóðfélaginu. Okkur Íslendingum er umhugað um að betur sé hlúð að okkar fólki sem missir vitið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mikael Torfason Mest lesið Dóttir mín – uppgjör eineltis Ragnheiður Harpa Sveinsdóttir Skoðun Þegar hjarðhegðun skyggir á skynsemi: Tökum upplýsta ákvörðun! Birta María Aðalsteinsdóttir Skoðun RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Halldór 28.12.2024 Halldór Styrkjum stöðu sjúkraliða fyrir betri heilbrigðisþjónustu Sandra B. Franks Skoðun
Englar alheimsins, sem nú eru til sýningar í Þjóðleikhúsinu, fá fullt hús í Fréttablaðinu í dag; fimm stjörnur. Uppsetning Þorleifs Arnar Arnarssonar, leikstjóra sýningarinnar, er stórbrotin og svo miklu meira en bara leiksýning. Þarna er sett á stóra svið Þjóðleikhússins túlkun leikhópsins á skáldsögu Einars Más Guðmundssonar og einnig kafað ofan í tilurð bókarinnar. Þá eru viðbrögð okkar samfélags við bókinni krufin; til dæmis að gera úr bókinni bíómynd. Hún er krufin og afstaða okkar til myndarinnar sömuleiðis. Þessu er svo öllu hlaðið ofan á hugmyndir okkar um geðsjúka, þeirra heim og okkar, þannig að eftir situr stórkostlegt listaverk sem byggir á þessari merkilegu sögu sem snertir okkur öll. Saga Einars Más hefur lengi haft mikil áhrif á okkur Íslendinga. Við vitum öll að Kleppur er víða. Í dag er jafnvel hægt að fullyrða að Kleppur sé alls staðar á Íslandi. Við erum sögð eiga tilkall til heimsmeta í áti á ákveðnum geðlyfjum. Það segir sína sögu. Í Englum alheimsins er sögð saga klepparans, manneskju sem missir vitið og á ekki afturkvæmt. Við skulum hafa í huga að sú saga er ekki úr fjarlægri fortíð. Hún á enn fullt erindi því þótt margt hafi breyst til batnaðar virðist ástandið ekkert batna. Þegar skáldsagan Englar alheimsins kom út fyrir tuttugu árum voru tólf hundruð Íslendingar yfir sjötíu og fimm prósent öryrkjar vegna geðsjúkdóma. Þetta var fólkið á örorkubótunum eða listamannalaunum, eins og Páll í Englunum kallar bæturnar. Í dag telur þessi fyrrnefndi hópur yfir sex þúsund manns. Það eru jafn margir og búa á Selfossi. Kleppur er hér enn og hann hefur stækkað mikið. Á Kleppi sjálfum, sjúkrahúsinu, hefur vissulega margt breyst síðustu áratugi. Það er samt hryllileg staðreynd að fjórir af hverjum fimm sjúklingum á Kleppi eru fastir þar þótt þeir hafi lokið meðferð. Þetta eru einstaklingar sem er ekki hægt að útskrifa á götuna heldur þyrftu á sérstöku búsetuúrræði að halda. Þetta er verst setti sjúklingahópurinn. Eftir sex mánuði á sjúkrahúsi missa sjúklingar örorkubæturnar og læsast inni í vítahring sem fáum tekst að rjúfa. Flestir þessara sjúklinga eru á aldrinum 20 til 40 ára. Þetta er ungt fólk sem á skilið betra. Í Fréttablaðinu í fyrra kom fram að tuttugu einstaklingar væru fastir á Kleppi eftir að hafa lokið endurhæfingu. Ástandið hér á suðvesturhorninu er verst hjá þeim sjúklingum sem eiga lögheimili annars staðar en í Reykjavík eða Reykjanesbæ. Í fréttum okkar í fyrra var Halldór Kolbeinsson, yfirlæknir á Kleppi, harðorður í garð sveitarfélaganna og sagði þau standa mjög illa að málefnum geðfatlaðra. Við getum gert svo miklu betur. Saga Einars Más, sem hann byggði á ævi bróður síns, Pálma Arnar, kemur okkur enn við. Bæði á bókasafninu, í bíómyndinni, í Þjóðleikhúsinu og úti í þjóðfélaginu. Okkur Íslendingum er umhugað um að betur sé hlúð að okkar fólki sem missir vitið.
Þegar hjarðhegðun skyggir á skynsemi: Tökum upplýsta ákvörðun! Birta María Aðalsteinsdóttir Skoðun
Þegar hjarðhegðun skyggir á skynsemi: Tökum upplýsta ákvörðun! Birta María Aðalsteinsdóttir Skoðun