Tvöfalt heilbrigðiskerfi Mikael Torfason skrifar 30. maí 2013 07:00 Á Íslandi bólusetjum við ekki við hlaupabólu, en í fréttum okkar á Stöð 2 í gær og Fréttablaðinu í dag kemur fram að árlega lenda nítján einstaklingar á spítala vegna alvarlegra einkenna af völdum hlaupabólu. Mikill fjöldi barna fær hlaupabólu árlega, með tilheyrandi kláða og óþægindum. Það tekur flesta krakka um tíu daga að jafna sig og mamma og pabbi þurfa að sjálfsögðu að taka sér frí frá vinnu til að sinna börnunum. Hlaupabóla getur verið alvarlegur sjúkdómur hjá börnum. Sjúkdómurinn getur nefnilega farið illa í börn líkt og fullorðna. Langflest þessara nítján sem þurfa að leggjast inn árlega eru börn. Oftast eru það bakteríusýkingar í sárum sem valda vandræðum. Í fyrra völdu um 220 foreldrar að bólusetja börnin sín við hlaupabólu, en það er mikil aukning frá árunum á undan. Þá báðu einungis um 50 foreldrar um þessa aukabólusetningu. Þetta er mikil aukning í prósentum talið, en bólusetningin kostar aukalega sextán þúsund krónur. Bóluefnið heitir varilrix, hver skammtur kostar átta þúsund og það þarf að bólusetja hvern einstakling tvisvar. Það eru sterk rök fyrir því að við sem samfélag ættum að leggja út fyrir bólusetningu handa öllum börnum á Íslandi. Hagfræðideild Háskóla Íslands komst að því fyrir fjórum árum að hlaupabóla kostaði samfélagið um 290 milljónir á ári. Þar vóg þyngst vinnutap foreldra barna með hlaupabólu. Kostnaður við bólusetningu á öllum okkar börnum kostaði þá, samkvæmt Hagfræðideildinni, ekki nema 156 milljónir. Önnur rök eru þau að við á Íslandi viljum ákveðið jafnræði þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Við stærum okkur af því að enginn sé tekinn fram fyrir röðina, sama hversu ríkur viðkomandi er. Lyf viljum við til dæmis að séu niðurgreidd svo allir hafi sama aðgang að þeim óháð efnahag. Við erum að þessu leyti viðkvæm fyrir stéttskiptu samfélagi. En um leið og við viljum ekki reka hér tvöfalt heilbrigðiskerfi krefjumst við þess að fá sem bestar upplýsingar um framþróun sem snertir heilsu okkar og líf. Þannig er sjálfsagt mál að foreldrar séu upplýstir um að þessi bóluefni séu til og gott að læknar auðveldi aðgengi að þeim. Engu að síður skulum við staldra við þegar svona tíðindi berast. Að sífellt fleiri foreldrar velji að bólusetja börn sín við sjúkdómi á borð við hlaupabólu. Það gefur tilefni fyrir nýjan heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, að skoða málið og athuga hvort ekki ætti að bjóða þetta bóluefni öllum börnum. Nú þegar bólusetjum við börn við ýmsum sjúkdómum í ungbarnaeftirliti og ekkert er sjálfsagðara en að bæta hlaupabólu við. Á Íslandi er þjóðarsátt um þessi mál og auðvelt að kippa þessu í liðinn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mikael Torfason Mest lesið Dóttir mín – uppgjör eineltis Ragnheiður Harpa Sveinsdóttir Skoðun Þegar hjarðhegðun skyggir á skynsemi: Tökum upplýsta ákvörðun! Birta María Aðalsteinsdóttir Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Halldór 28.12.2024 Halldór ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Styrkjum stöðu sjúkraliða fyrir betri heilbrigðisþjónustu Sandra B. Franks Skoðun
Á Íslandi bólusetjum við ekki við hlaupabólu, en í fréttum okkar á Stöð 2 í gær og Fréttablaðinu í dag kemur fram að árlega lenda nítján einstaklingar á spítala vegna alvarlegra einkenna af völdum hlaupabólu. Mikill fjöldi barna fær hlaupabólu árlega, með tilheyrandi kláða og óþægindum. Það tekur flesta krakka um tíu daga að jafna sig og mamma og pabbi þurfa að sjálfsögðu að taka sér frí frá vinnu til að sinna börnunum. Hlaupabóla getur verið alvarlegur sjúkdómur hjá börnum. Sjúkdómurinn getur nefnilega farið illa í börn líkt og fullorðna. Langflest þessara nítján sem þurfa að leggjast inn árlega eru börn. Oftast eru það bakteríusýkingar í sárum sem valda vandræðum. Í fyrra völdu um 220 foreldrar að bólusetja börnin sín við hlaupabólu, en það er mikil aukning frá árunum á undan. Þá báðu einungis um 50 foreldrar um þessa aukabólusetningu. Þetta er mikil aukning í prósentum talið, en bólusetningin kostar aukalega sextán þúsund krónur. Bóluefnið heitir varilrix, hver skammtur kostar átta þúsund og það þarf að bólusetja hvern einstakling tvisvar. Það eru sterk rök fyrir því að við sem samfélag ættum að leggja út fyrir bólusetningu handa öllum börnum á Íslandi. Hagfræðideild Háskóla Íslands komst að því fyrir fjórum árum að hlaupabóla kostaði samfélagið um 290 milljónir á ári. Þar vóg þyngst vinnutap foreldra barna með hlaupabólu. Kostnaður við bólusetningu á öllum okkar börnum kostaði þá, samkvæmt Hagfræðideildinni, ekki nema 156 milljónir. Önnur rök eru þau að við á Íslandi viljum ákveðið jafnræði þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Við stærum okkur af því að enginn sé tekinn fram fyrir röðina, sama hversu ríkur viðkomandi er. Lyf viljum við til dæmis að séu niðurgreidd svo allir hafi sama aðgang að þeim óháð efnahag. Við erum að þessu leyti viðkvæm fyrir stéttskiptu samfélagi. En um leið og við viljum ekki reka hér tvöfalt heilbrigðiskerfi krefjumst við þess að fá sem bestar upplýsingar um framþróun sem snertir heilsu okkar og líf. Þannig er sjálfsagt mál að foreldrar séu upplýstir um að þessi bóluefni séu til og gott að læknar auðveldi aðgengi að þeim. Engu að síður skulum við staldra við þegar svona tíðindi berast. Að sífellt fleiri foreldrar velji að bólusetja börn sín við sjúkdómi á borð við hlaupabólu. Það gefur tilefni fyrir nýjan heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, að skoða málið og athuga hvort ekki ætti að bjóða þetta bóluefni öllum börnum. Nú þegar bólusetjum við börn við ýmsum sjúkdómum í ungbarnaeftirliti og ekkert er sjálfsagðara en að bæta hlaupabólu við. Á Íslandi er þjóðarsátt um þessi mál og auðvelt að kippa þessu í liðinn.
Þegar hjarðhegðun skyggir á skynsemi: Tökum upplýsta ákvörðun! Birta María Aðalsteinsdóttir Skoðun
Þegar hjarðhegðun skyggir á skynsemi: Tökum upplýsta ákvörðun! Birta María Aðalsteinsdóttir Skoðun