Þegar skólinn kostar Pawel Bartoszek skrifar 18. október 2013 06:00 Blautur draumur markaðssinnans rættist. Á heimasíðu skóla sonar míns birtist tilkynning um að mánaðargjöldin fyrir september og október væru komin í heimabankann. Foreldrar væru vinsamlegast beðnir um að borga þau svo kennarar gætu fengið greidd laun. Fyrsta skóladaginn voru foreldrar með börnunum í skólastofunni þar sem kennarinn ítrekaði að börnunum viðstöddum (hugsið ykkur) að skólinn kostaði og það þyrfti að borga fyrir hann. Hún bætti því líka við að allir foreldrar þyrftu að hjálpa til á göngunum einn dag á hverri önn. Ef menn flöskuðu á því myndu þeir borga sekt.Norræna módelið Hið norræna módel opinberrar þjónustu er gjarnan þetta: Ríkið ákveður að gera eitthvað. Ríkið ákveður að rukka ekki fyrir það til að jafnt ríkir sem fátækir geti notið þjónustunnar. Tilraunum annarra til að veita sömu þjónustu er varist af ótta við að til verði „tvöfalt“ kerfi. Innan kerfisins, eina kerfisins, er fjárhagsvandræðum síðan alltaf mætt með hagræðingu, fremur en með því að rukka notendur fyrir þá þjónustu sem þeir kunna að óska sér. Persónulega hef ég ekkert á móti því að einkaaðilar reki skóla eða sjúkrahús. Áður en menn kalla þessa afstöðu „frjálshyggju“ langar mig að koma með örlitla sögulega skýringu á því hvers vegna þeir sem eiga ættir að rekja til Póllands sýna því kannski örlítið meiri skilning að menntun sé ekki ókeypis. Enda frásögnin hér fyrir ofan, þessi með mánaðargjöldin, sönn. Skólinn er pólski skólinn í Reykjavík, þar sem sonur minn mætir í fimm ára bekk með öðrum pólskættuðum börnum, annan hvern laugardag. Pólverjar hafa talsverða reynslu af því að búa í ríki sem er þeim beinlínis fjandsamlegt. Pólland var undir erlendu valdi alla nítjándu öld og allt fram til 1918. Síðan var það hersetið af nasistum 1939-1945 og undir alræðisstjórn til 1989. Þannig að bæði fyrir 1918 og svo aftur á stríðsárum var talsvert um pólska skóla sem reknir voru, milt sagt, í óþökk ríkjandi stjórnvalda. Kannski er það út af þessu sem mér gæti þótt meira atriði að menn fái frið til að gera hluti en að ríkið borgi eitthvað fyrir þá. Því eins og það væri yndislegt að ríkið borgaði fyrir pólskukennslu barna (og mörg sveitarfélög gera það, vel að merkja) þá er alltaf hætta á því að sú þjónusta verði látin fjúka í einhverri „hagræðingunni“. Ég meina það, að vilja læra pólsku eða litháísku í skólanum er bara sérósk eins og það að vilja ekki borða kjötbollur. Sérósk sem kostar. „Og hvað ef einhver einn vill læra bretónsku, eigum við að eyða fé í það líka?“ mun einhver spyrja. Ég er raunar nokkuð viss um að til eru menn sem helst myndu vilja skera alla erlenda móðurmálskennslu niður. Þeir myndu bera við fjárhagsástæðum þótt aðrar og óviðfelldnari ástæður lægju að baki. Í þannig umhverfi finnst mér stundum betra að treysta á að ég sjálfur sé aflögufær um nokkra þúsundkalla á mánuði en að treysta á að samfélagið verði mér sammála um að opinberum fjármunum sé best varið í mína þágu.Allir saman, allir eins Ég hef stundum áhyggjur af Norðurlöndunum. Ég hef áhyggjur af því að módelið byggist í grundvallaratriðum á því að fólk sé nokkurn veginn eins. Eða allavega eins og fjölskylda, þar sem allir mæta í sömu kaffiboðin, borða sama matinn og hjálpast að við ganga frá eftir sig. „Nei, þú ferð ekkert að borga fyrir matinn! Mamma býður! Ha, borðarðu ekki kjöt? Af hverju ekki? N…“ Framganga hálfvitaflokka annars staðar á Norðurlöndum sýnir að það er allavega áskorun að reka velferðarkerfi þegar fólk er ekki allt eins. Og í þannig veruleika finnst mér það alveg hugmynd að rukka lægri skatta og hætta að niðurgreiða mat í leikskólum frekar en að niðurgreiða mat fyrir 90 prósent af fólki og segja hinum að ÞEIRRA séróskir séu allt of dýrar. Ég skal gjarnan hlusta á fleiri lausnir. En ég vil helst að þær lausnir séu þannig að þær komi til móts við þarfir fleiri einstaklinga, en ekki færri. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pawel Bartoszek Mest lesið Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Öryggis annarra vegna… Ingunn Björnsdóttir Skoðun
Blautur draumur markaðssinnans rættist. Á heimasíðu skóla sonar míns birtist tilkynning um að mánaðargjöldin fyrir september og október væru komin í heimabankann. Foreldrar væru vinsamlegast beðnir um að borga þau svo kennarar gætu fengið greidd laun. Fyrsta skóladaginn voru foreldrar með börnunum í skólastofunni þar sem kennarinn ítrekaði að börnunum viðstöddum (hugsið ykkur) að skólinn kostaði og það þyrfti að borga fyrir hann. Hún bætti því líka við að allir foreldrar þyrftu að hjálpa til á göngunum einn dag á hverri önn. Ef menn flöskuðu á því myndu þeir borga sekt.Norræna módelið Hið norræna módel opinberrar þjónustu er gjarnan þetta: Ríkið ákveður að gera eitthvað. Ríkið ákveður að rukka ekki fyrir það til að jafnt ríkir sem fátækir geti notið þjónustunnar. Tilraunum annarra til að veita sömu þjónustu er varist af ótta við að til verði „tvöfalt“ kerfi. Innan kerfisins, eina kerfisins, er fjárhagsvandræðum síðan alltaf mætt með hagræðingu, fremur en með því að rukka notendur fyrir þá þjónustu sem þeir kunna að óska sér. Persónulega hef ég ekkert á móti því að einkaaðilar reki skóla eða sjúkrahús. Áður en menn kalla þessa afstöðu „frjálshyggju“ langar mig að koma með örlitla sögulega skýringu á því hvers vegna þeir sem eiga ættir að rekja til Póllands sýna því kannski örlítið meiri skilning að menntun sé ekki ókeypis. Enda frásögnin hér fyrir ofan, þessi með mánaðargjöldin, sönn. Skólinn er pólski skólinn í Reykjavík, þar sem sonur minn mætir í fimm ára bekk með öðrum pólskættuðum börnum, annan hvern laugardag. Pólverjar hafa talsverða reynslu af því að búa í ríki sem er þeim beinlínis fjandsamlegt. Pólland var undir erlendu valdi alla nítjándu öld og allt fram til 1918. Síðan var það hersetið af nasistum 1939-1945 og undir alræðisstjórn til 1989. Þannig að bæði fyrir 1918 og svo aftur á stríðsárum var talsvert um pólska skóla sem reknir voru, milt sagt, í óþökk ríkjandi stjórnvalda. Kannski er það út af þessu sem mér gæti þótt meira atriði að menn fái frið til að gera hluti en að ríkið borgi eitthvað fyrir þá. Því eins og það væri yndislegt að ríkið borgaði fyrir pólskukennslu barna (og mörg sveitarfélög gera það, vel að merkja) þá er alltaf hætta á því að sú þjónusta verði látin fjúka í einhverri „hagræðingunni“. Ég meina það, að vilja læra pólsku eða litháísku í skólanum er bara sérósk eins og það að vilja ekki borða kjötbollur. Sérósk sem kostar. „Og hvað ef einhver einn vill læra bretónsku, eigum við að eyða fé í það líka?“ mun einhver spyrja. Ég er raunar nokkuð viss um að til eru menn sem helst myndu vilja skera alla erlenda móðurmálskennslu niður. Þeir myndu bera við fjárhagsástæðum þótt aðrar og óviðfelldnari ástæður lægju að baki. Í þannig umhverfi finnst mér stundum betra að treysta á að ég sjálfur sé aflögufær um nokkra þúsundkalla á mánuði en að treysta á að samfélagið verði mér sammála um að opinberum fjármunum sé best varið í mína þágu.Allir saman, allir eins Ég hef stundum áhyggjur af Norðurlöndunum. Ég hef áhyggjur af því að módelið byggist í grundvallaratriðum á því að fólk sé nokkurn veginn eins. Eða allavega eins og fjölskylda, þar sem allir mæta í sömu kaffiboðin, borða sama matinn og hjálpast að við ganga frá eftir sig. „Nei, þú ferð ekkert að borga fyrir matinn! Mamma býður! Ha, borðarðu ekki kjöt? Af hverju ekki? N…“ Framganga hálfvitaflokka annars staðar á Norðurlöndum sýnir að það er allavega áskorun að reka velferðarkerfi þegar fólk er ekki allt eins. Og í þannig veruleika finnst mér það alveg hugmynd að rukka lægri skatta og hætta að niðurgreiða mat í leikskólum frekar en að niðurgreiða mat fyrir 90 prósent af fólki og segja hinum að ÞEIRRA séróskir séu allt of dýrar. Ég skal gjarnan hlusta á fleiri lausnir. En ég vil helst að þær lausnir séu þannig að þær komi til móts við þarfir fleiri einstaklinga, en ekki færri.