FC Kaupmannahöfn staðfesti í dag að félagið hefði fengið tilboð frá rússnesku knattspyrnufélagi í landsliðsmanninn Ragnar Sigurðsson.
FCK sendi dönskum fjölmiðlum tilkynningu þess efnis í dag en Ekstra Bladet birti í morgun frétt þar sem fullyrt var að FCK væri að íhuga að selja Ragnar á 425 milljónir króna.
„Vegna sögusagna um áhuga rússnesks knattspyrnufélags á Ragnari Sigurðssyni getur FCK nú staðfest að félagið hafi fengið tilboð í Ragnar,“ sagði í yfirlýsingunni.
„Það verður tilkynnt sérstaklega ef aðilar komast að samkomulagi um félagaskipti Ragnars áður en lokað verður fyrir félagaskipti í vetur,“ sagði enn fremur.
Sjálfur hafði Ragnar ekki heyrt af áhuga rússneskra liða á sér þegar að Vísir ræddi við hann í morgun.
FCK fékk tilboð frá Rússlandi í Ragnar
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
