Golden State vann Washington á útivelli, 112-96. Klay Thompson átti stórleik og skoraði 26 stig. Eftir jafnan fyrri hálfleik gerðu gestirnir út um leikinn með 30-5 sprett í upphafi þess síðari.
Hápunktur leiksins var troðsla Andrew Bogut þegar hann náði að fylgja eftir „skoti“ Steph Curry en hana má sjá hér fyrir neðan.
Þetta er í fyrsta sinn síðan 1975 sem að Golden State vinnur níu leiki í röð og er liðið komið upp í fjórða sæti Vesturdeildarinnar.
Lítið var um óvænt úrslit í deildinni í nótt en New York vann þó góðan útisigur á Dallas, 92-80, þar sem að Carmelo Anthony skoraði nítján stig, þar af fimmtán í fyrsta leikhluta.
New York náði mest nítján stiga forystu í leiknum en Dallas náði mest að minnka muninn í sex stig í síðari hálfleik. Dirk Nowitzky var stigahæstur hjá heimamönnum með átján stig og níu fráköst.
Tvö efstu lið Austurdeildarinnar, Indiana og Miami, unnu sína leiki og efsta lið Vesturdeildarinnar, Oklahoma City, vann öruggan sigur á Boston á heimavelli. Liðið forðaðist þar með að tapa sínum þriðja heimaleik í röð.
Úrslit næturinnar:
Detroit - Memphis 84-112
Cleveland - Indiana 78-82
Miami - Toronto 102-97
Washington - Golden State 96-112
Oklahoma City - Boston 119-96
Dallas - New York 80-92
LA Lakers - Denver 115-137