Ulrik Wilbek, þjálfari danska landsliðsins, hefur trú á því að Danir mæti Norðmönnum í milliriðlinum á EM í handbolta í Danmörku en norska liðið er í riðli með því íslenska á mótinu.
Ísland mætir Noregi í fyrsta leik á Evrópumótinu 12. janúar næstkomandi en Norðmenn mæta heilsuhraustir til leiks og hafa marga unga og efnilega leikmenn innanborðs. Uppkoma leikmanna í Noregi fer ekki framhjá Wilbek.
„Noregur á mikla möguleika á því að komast í aðra umferð. Norðmenn eru með frábæran hóp og eru líka meiðslafríir miðað við hin liðin í þeirra riðli," sagði Ulrik Wilbek á blaðamannafundi danska landsliðsins í gær.
Norðmenn sátu eftir í riðlinum á EM í Serbíu fyrir tveimur árum þrátt fyrir að hafa unnið Slóvena í fyrsta leik. Slóvenía, Ísland og Noregur voru öll með tvö stig en Slóvenar og Íslendingar komust áfram á betri stöðu í innbyrðisleikjum.
Besti árangur Norðmanna á EM var þegar liðið náði 6. sæti á EM í Noregi árið 2008. Liðið varð síðan í 7. sæti í Austurríki tveimur árum seinna.

