Veginum frá Vík og vestur fyrir Eyjafjöll hefur verið lokað vegna óveðurs og hálku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Hálka og skafrenningur er í Þrengslum en þæfingur er á Hellisheiði og Sandskeiði en einnig skafrenningur. Hálka eða snjóþekja er annars á flestum vegum á Suðurlandi en þó er þæfingsfærð við Gjábakka og á nokkrum sveitavegum. Hálka og skafrenningur er við Kjalarnes.
Á Vesturlandi og Vestfjörðum er snjóþekja, hálka og mjög víða skafrenningur. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Bröttubrekku en einnig á Klettshálsi og Mikladal. Þungfært og skafrenningur er á Hálfdán.
Á Norður- og Norðausturlandi er snjóþekja, hálka og hálkublettir og sumstaðar einhver skafrenningur.
Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja víðast hvar. Hálkublettir eru á köflum með suðurstöndinni, raunar er hálka á Mýrdalssandi. Hálkublettir og óveður er í Öræfum.
Versnandi veðri er spáð þegar kemur fram á daginn, einkum sunnanlands. Reiknað er með A-stormi yfir 20 m/s með skafrenningi, blindu og síðar ofankomu frá því um kl.15 á Suðurlandsvegi skammt austan Reykjavíkur og yfir Hellisheiði og Þrengsli. Eins á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Á Kjalarnesi verða hviður 30-40 m/s frá því upp úr hádegi og fram á kvöld. Undir Eyjafjöllum og í Öræfum verður foráttuhvasst frá hádegi og nær hámarki með ofsaveðri syðst síðdegis og hviður allt að 50 m/s.
