Norðmenn treysta á mikinn stuðning í leiknum gegn Íslandi á morgun. Ekki bara frá Norðmönnum heldur einnig frá fólkinu í Álaborg.
Tveir af leikmönnum norska liðsins - Ole Erevik og Håvard Tvedten - spila með liði Álaborgar og stórstjarna norska liðsins, Kristian Kjelling, var á mála hjá Álaborg í fyrra.
Norðmenn eru með mikla móttöku sem hefst eftir hálftíma. Borgarstjóri Álaborgar, Thomas Kastrup-Larsen, leynir því ekkert með hverjum hann heldur því hann sér um móttökuna ásamt sendiherra Noregs, Ingvard Havnen.
Þar verða þeir Erevik, Tvedten og Kjelling. Þeir munu bjóða upp á myndatökur og spjalla við gesti og gangandi.
Það er deginum ljósara að Ísland verður á mjög erfiðum útivelli á morgun í hinni stóru og glæsilegu Gigantium-höll.
