Kevin Durant skoraði 26 stig á 30 mínútum þegar Oklahoma City Thunder vann 120-95 yfirburðar útisigur á Brooklyn Nets en liðsfélagi hans Serge Ibaka hitti úr öllum tólf skotum sínum og endaði með 25 stig. Durant, sem hitti úr 10 af 12 skotum sínum, hefði vel getað komist yfir 30 stigin en hvíldi allan fjórða leikhlutann í unnum leik.
Stephen Curry skoraði átta þriggja stiga körfur og alls 44 stig þegar Golden State Warriors vann 95-90 sigur á Utah Jazz. Warriors vann upp níu stiga forskot Utah í lokaleikhlutanum þar sem Curry skoraði 13 stig. Andrew Bogut var með 16 stig, 17 fráköst og 5 stoðsendingar en Klay Thompson hitti aðeins úr 3 af 20 skotum sínum. Alec Burks skoraði 26 stig fyrir Utah.
Al Jefferson var með 40 stig, 16 í fjórða leikhlutanum, þegar Charlotte Bobcats unnu 110-100 sigur á Los Angeles Lakers í Staples Center. Þetta var sjötta tap Lakers-liðsins í röð. Jefferson setti líka félagsmet með því að fara yfir 20 stigin í ellefta leiknum í röð.
Dirk Nowitzki skoraði 34 stig þegar Dallas Mavericks vann 107-103 sigur á Sacramento Kings en Kings-liðið sem lék án aðalmannsins síns DeMarcus Cousins tapaði þarna sínum sjötta leik í röð.
Öll úrslitin í NBA-deildinni í nótt:
Orlando Magic - Milwaukee Bucks 113-102
Philadelphia 76Ers - Atlanta Hawks 99-125
Minnesota Timberwolves - Memphis Grizzlies 90-94
Brooklyn Nets - Oklahoma City Thunder 95-120
Dallas Mavericks - Sacramento Kings 107-103
Denver Nuggets - Toronto Raptors 90-100
Los Angeles Lakers - Charlotte Bobcats 100-110
Utah Jazz - Golden State Warriors 90-95