Innlent

Gera ráð fyrir slæmu veðri á fjallvegum í dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Hvasst var á Norðurlandi í nótt, allt frá Tröllaskaga að Vestfjörðum, og í dag verður enn hvasst víða. Einnig hefur snjóað víða og mældu sjálfvirkir mælar á Tröllaskaga 42 millimetra úrkomu síðasta sólarhringinn. Margar stöðvar á Norðurlandi sýna yfir 10 millimetra úrkomu.

Verið er að kanna ástæður á vegum á Norðanverðu landinu sem og á Vestfjörðum og Austfjörðum, samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni. Fjallvegir eru víða ófærir á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum, en mokstur er hafinn á flestum leiðum.

Gert er ráð fyrir hríðaveðri, skafrenningi og blindu samfara mikilli veðurhæð um norðanvert landið í allan dag. Þó á veðrið að skána í kvöld, en áfram verður strekkingur og bylur á heiðum. Vegir eru mikið til auðir á Suður- og Suðvesturlandi en þó eru  hálkublettir á Hellisheiði, Mosfellsheiði og Bláfjallavegi.

Hálka eða hálkublettir eru nokkuð víða á Vesturlandi, einkum á fjallvegum. Snjóþekja og skafrenningur er á Holtavörðuheiði. Hálkublettir eru á flestum leiðum á Snæfellsnesi og óveður við Hraunsmúla. Hálka og éljagagangur er á Vatnaleiði. Ófært er um Fróðárheiði og þæfingsfærð og skafrenningur í Svínadal.

Á Vestfjörðum er ófært á Þröskuldum  og Klettsháls einnig frá Brjánslæk að Klettsháls. Þungfært og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði. Þæfingsfærð og óveður er á Gemlufallsheiði. Þæfingsfærð er á Kleifarheiði,  Hjallháls, í Ísafjarðardjúpi, á Flateyrarvegi og í Súgandafirði. Hálka eða snjóþekja og skafrenningur er á öðrum leiðum.

Hálka er á Norðvesturlandi. Ófært er á  Þverárfjalli. Siglufjarðarvegur er lokaður vegna snjóflóðs í Mánaskriðum og verður skoðað þegar líður á morguninn. Þungfært er í Héðinsfirði.

Á Norðausturlandi er hálka eða snjóþekja á vegum og víða éljagangur. Snjóþekja og skafrenningur er á Víkurskarði.  Ófært er á Öxnadalsheiði,  Mývatnsöræfum, á Vopnafjarðarheiði og á Möðrudalsöræfum.

Snjóþekja eða hálka er á vegum á Austurlandi.  Ófært er á Fjarðarheiði og Vatnskarði eystra.  Hálkublettir eru frá Streiti og að Djúpavogi en greiðfært þaðan og áfram með suðurströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×