Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, ræðir landsliðsmálin í viðtali við karfan.is í morgun en íslenska karlalandsliðið er ennþá án þjálfara eftir að Svíinn Peter Öqvist hætti með liðið.
Hannes sagði í fréttinni á karfan.is að góður möguleiki væri að sambandið myndi ráða annan erlendan landsliðsþjálfara fyrir undankeppni EM næsta sumar.
„Við erum að vinna í landsliðsþjálfaramálunum þessa dagana og það er góður möguleiki að það verði önnur „erlend“ ráðning. Við höfum einnig heyrt hljóðið í flestum leikmönnunum sem voru með í fyrra og miðað við það þá gerum við ráð fyrir að allir séu klárir í spennandi verkefni sumararins," sagði Hannes við karfan.is. Peter Öqvist þjálfaði íslenska landsliðið í þrjú ár og liðið náði betri árangri með hverju árinu.
Hannes hrósar íslensku landsliðsmönnunum fyrir gott hugarfar gagnvart landsliðinu.
„Þeir leikmenn sem hafa verið í landsliðinu á undanförnum árum sem og þeir sem eru að banka á landsliðsdyrnar núna eru miklir toppmenn og mjög metnaðargjarnir fyrir hönd landsliðsins og þeir eru alltaf klárir þegar kemur að A-landsliðinu nema þegar um meiðsl er að ræða," segir Hannes en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér.
Góður möguleiki á því að KKÍ ráði annan erlendan landsliðsþjálfara
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
