„Þetta er alvöru náttúra,“ segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri Bláfjalla um snjóflóð sem féll á suðursvæði Bláfjalla í nótt. Hann segir að svo virðist sem helstu mannvirki hafi sloppið
„Þetta var rosalega öflugt flóð, en við höfum ekki séð skemmdir á mannvirkjum enn sem komið er, fyrir utan þrjá eða fjóra ljósastaura sem hafa brotnað,“ útskýrir Einar.
Flóðið var fallið þegar starfsmenn Bláfjalla mættu til vinnu í morgun.
„Þetta féll líklegast í nótt eða í gærkvöldi,“ segir Einar.
Hann segir skýringuna á flóðinu líklega vera mikil rigningartíð í Bláfjöllum. „Hér hafa verið gígantískar rigningar, brekkurnar voru hreinlega bláar,“ segir Einar.
Hann segir snjóflóð áður hafa fallið á þessum slóðum. „En ekkert svona stórt og af allt annarri tegund,“ útskýrir hann.
En hvað tekur nú við hjá ykkur?
„Við hringdum í Veðurstofuna og við fáum mann sendan til okkar sem mælir þetta allt og skoðar. Svo bara ýtum við þessum snjó frá og opnum upp á nýtt. Við opnum líklegast á laugardagsmorgun, við tökum okkur nóttina og föstudaginn í að ryðja þessu í burtu og svo verðum við klárir,“ segir Einar.
