Stjörnukonurnar Hanna Guðrún Stefánsdóttir og Florentina Stanciu verða ekki með íslenska kvennalandsliðinu í handbolta þegar liðið mætir Frökkum í tveimur leikjum í undankeppni EM.
Marthe Sördal hornamaður úr Fram og Dröfn Haraldsdóttir markvörður úr ÍBV koma inn í íslenska hópinn í stað þeirra Hönnu Guðrúnar og Florentinu sem urðu að draga sig út úr hópnum vegna meiðsla.
Ágúst Þór Jóhannsson landsliðsþjálfari A-landsliðs kvenna, valdi þær Hönnu Guðrúnu og Florentinu í sextán manna hóp sinn en þær hafa báðar verið lykilmenn á bak við sigur Stjörnuliðsins í deildarkeppni Olís-deildar kvenna og verður því sárt saknað í leikjunum við Frakka.
Leikirnir við Frakka verða hér heima miðvikudaginn 26. mars næstkomandi klukkan 19.30 í Laugardalshöll en síðan fer liðið til Frakklands og leikur þar laugardaginn 29. mars klukkan 16.30 að íslenskum tíma. Leikirnir eru báðir í riðlakeppni fyrir EM í Ungverjalandi og Króatíu sem fer fram í desember 2014.
