Einn af mögulegum mótherjum Chelsea-liðsins er spænska liðið Atletico Madrid en einn af bestu mönnum liðsins er belgíski markvörðurinn Thibaut Courtois.
Það vita kannski ekki allir að Thibaut Courtois er í raun leikmaður Chelsea því félagið keypti hann frá belgíska félaginu í júlí 2011 og skrifaði hann þá undir fimm ára samning.
Courtois hefur aldrei spilað fyrir Chelsea því félagið er í frábærum málum með Tékkann Petr Cech sem aðalmarkvörður liðsins. Courtois hefur því verið í láni hjá Atlético Madrid undanfarin þrjú tímabil enda hefur hann ekki áhuga á að sitja á bekknum á Brúnni.
Daily Mail segir frá því í morgun að Chelsea hafi gefið Thibaut Courtois leyfi til að spila ef Atlético Madrid og Chelsea dragast saman í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í dag.
Courtois hefur áður spilað með Atlético Madrid á móti Chelsea en hann stóð í marki liðsins þegar Atlético Madrid vann 4-1 sigur á Chelsea Súper-bikar UEFA árið 2012 en það er árlegur leikur milli Evrópumeistara síðasta árs.
