Innlent

Veðurofsi víða um land

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/stefán
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa verið að störfum í dag enda veður víða slæmt.

Lífsbjörg í Snæfellsbæ hefur verið að frá hádegi, mest við að aðstoða ökumenn sem fest hafa bíla sína, sjö á sunnanverðu Snæfellsnesi og tvo við Búðir. Einnig losnuðu plötur af hesthúsi í sveitinni.

Á Hofsósi fuku þakplötur af útihúsum og aðstoðaði Björgunarsveitin Grettir ábúendur við að tryggja ástandið. Víkverji í Vík var svo kölluð út vegna ferðafólks sem hafði fest bíl sinn á Dyrhólavegi.

Þá fór rafmagn af í Ólafsvík, Hellissandi, Rifi og Fróðárhreppum klukkan 16:45 í stutta stund vegna útleysingar á 66 kV flutningslínu Vegamót-Ólafsvík.

Mjög hvasst er í Staðarsveit og ekki ólíklegt að um samslátt á línunni hafi verið að ræða.

Nú undir kvöld er snjóþekja, hálka eða hálkublettir á vegum á Vesturlandi samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni. Hálkublettir eða hálka og óveður er á Snæfellsnesi en hálkublettir og skafrenningur á Bröttubrekku.  Snjóþekja og skafrenningur er á Holtavörðuheiði. Ófært er á Fróðárheiði og í Svínadal í Dölum, en þar er einnig stórhríð. Þungfært og stórhríð er á milli Búða og Hellna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×