Innlent

Ófært víða um land

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Róbert
Á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum er hálka og éljagangur.  Einnig er hálka á Mosfellsheiði en þar er einnig skafrenningur. Snjóþekja og skafrenningur er á Lyngdalsheiði og snjóþekja eða hálka er á láglendi og í uppsveitum á Suðurlandi.

Á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli eru hálkublettir og skafrenningur. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Á Vesturlandi er snjóþekja, hálka eða hálkublettir. Þá er óveður á Snæfellsnesi og hálkublettir eða hálka. Snjóþekja og skafrenningur er á Bröttubrekku og Holtavörðuheiði. Ófært er og stórhríð á Fróðárheiði og í Svínadal.

Flest allar leiðir á Vestfjörðum eru ófærar vegna stórhríðar. Þungfært eða þæfingsfærð og óveður er á nokkrum leiðum á láglendi. Á Ennisháls er þæfingsfærð og stórhríð.

Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum. Þá eru hálkublettir og skafrenningur í Húnavatnssýslum og Vatnsskarði. Á Skagastrandavegi eru hálkublettir og stórhríð. Á Þverárfjalli og Siglufjarðarvegi er ófært og stórhríð.

Ófært og stórhríð er á öllum leiðum austan Eyjafjarðar og snjóþekja og skafrenningur er frá Akureyri í Dalvík. Þæfingsfærð er í Ólafsfjarðarmúla og þar er einnig varað við snjóflóðahættur. Þá er ófært og stórhríð á Öxnadalsheiði.

Mývatns- og Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði hefur verið lokað.

Snjóþekja er víðast hvar á Austurlandi og sumstaðar er skafrenningur. Þæfingsfærð er á Oddskarði þar sem verið er að moka. Hálka er á Fagradal og ófært er á Fjarðarheiði og Vatnsskarði eystra. Snjóþekja eða hálkublettir og éljagangur er með suðausturströndinni.


Tengdar fréttir

Leiðindaveður víða um land

Norðaustan hvassviðri er víða um land með snjókomu og skafrenningi sem veldur ófærð á vegum. Björgunarsveit var kölluð út á Siglufirði í nótt þar sem allt mögulegt var farið að fjúka, en ekki hafa borist fregnir af fólki í vandræðum í föstum bílum, enda var nánast engin umferð um Vestfirði, Norðurland og Austfirði í nótt.

Strákar að störfum í nótt

Björgunarsveitin Strákar var kölluð út í nótt þar sem skúr var við það að fjúka og margt annað lauslegt fauk um á Siglufirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×