Fótbolti

Fyrsta tap Juventus síðan í október

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Callejón kemur Napoli yfir gegn Juventus.
José Callejón kemur Napoli yfir gegn Juventus. Vísir/Getty
Rafa Benitez og lærisveinar hans í Napoli urðu í kvöld aðeins annað liðið til að leggja Juventus að velli í Serie A í vetur.

Spánverjinn José Callejón kom Napoli yfir átta mínútum fyrir leikhlé með sínu 17. marki á tímabilinu og það var síðan varamaðurinn Dries Mertens sem tryggði Napoli sigurinn þegar hann bætti við marki á 81. mínútu.

Þetta var aðeins annað tap Juventus í Serie A í vetur, en fyrir leikinn var liðið búið að leika 22 leiki í deildinni án þess að tapa. Þetta var einnig í fyrsta skipti í 43 deildarleikjum sem Juventus mistekst að skora.

Þrátt fyrir tapið á Juventus Ítalíumeistaratitilinn svo gott sem vísan. Liðið er 11 stigum á undan Roma sem situr í öðru sæti deildarinnar. Rómverjar, sem unnu Sassoulo fyrr í dag, eiga þó leik til góða.

Napoli er í þriðja sæti, sex stigum á eftir Roma, en annað sætið gefur þátttökurétt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Liðið í þriðja sæti þarf hins vegar að leika umspilsleiki um sæti í Meistaradeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×