Frakkinn Karim Benzema, framherji Real Madrid, vill helst mæta Paris-Saint Germain í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Lissabon í maí komist spænska liðið alla leið í úrslit.
Real Madrid er á höttunum eftir tíunda Evrópumeistaratitlinum en liðið hefur ekki unnið þessa stærstu keppni álfunnar síðan það lagði Bayer Leverkusen í Glasgow fyrir tólf árum.
„Real Madrid á móti PSG væri draumaúrslitaleikurinn. Af hverju? Því Madrid er mitt lið og PSG því það er franskt lið,“ sagði Benzema í viðtali á heimasíðu UEFA.
Real Madrid gekk lengi vel erfiðlega að komast í gegnum 16 liða úrslitin en er nú búið að tapa í undanúrslitum þrjú ár í röð. Þar á bæ finna menn lyktina af þeim tíunda sem þeir þrá svo heitt.
„Við höfum komist í undanúrslit þrjú ár í röð. Núna gengur okkur mjög vel en það eru nokkrir leikir eftir til að komast í úrslitin. Við nálgumst samt úrslitaleikinn,“ sagði Karim Benzema.
Real Madrid mætir Dortmund á Signal Iduna Park á morgun í seinni leik liðanna í 8 liða úrslitum en Real er 3-0 yfir eftir fyrri leikinn í Madríd.

