Bayern München tapaði í dag sínum fyrsta leik á tímabilinu í þýsku úrvalsdeildinni er liðið mætti Augsburg.
Svo fór að Augsburg vann 1-0 sigur með marki Sascha Mölders á 31. mínútu en Pep Guardiola, stjóri Bayern, hvíldi marga lykilmenn í kvöld fyrir síðari leikinn gegn Manchester United í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á miðvikudag.
Bayern tryggði sér þýska meistaratitilinn í síðasta mánuði og því kom tapið ekki að sök. Liðið hafði ekki tapað leik í deildinni síðan í lok október 2012.
Schalke mistókst að koma sér upp í annað sæti deildarinnar en liðið gerði aðeins jafntefli við Bremen, 1-1. Erkifjendurnir Dortmund og Schalke eru jöfn að stigum í 2.-3. sæti en Dortmund á leik til góða.
Gladbach komst svo upp í fjórða sætið á kostnað Leverkusen með 2-0 sigri á Nürnberg. Wolfsburg, sem er í sjötta sæti, getur komist upp fyrir Gladbach með sigri á Dortmund síðdegis.
Úrslit dagsins:
Bremen - Schalke 1-1
Augsburg - Bayern 1-0
Nürnberg - Gladbach 0-2
Stuttgart - Freiburg 2-0
Frankfurt - Mainz 2-0

