Körfubolti

Brooklyn og San Antonio unnu oddaleikina og komust áfram

Tómas Þór Þórðarson skrifar
San Antonio Spurs, liðið með besta árangurinn í NBA-deildinni í ár, komst áfram í aðra umferð úrslitakeppninnar eftir sigur á Dallas Mavericks, 119-96, í oddaleik í einvígi liðanna á heimavelli sínum í gærkvöldi.

Leikstjórnandinn Tony Parker átti stórleik fyrir heimamenn en hann skoraði 32 stig og Argentínumaðurinn ManuGinobli kom sterkur inn af bekknum og skoraði 20 stig. Hjá Dallas var Dirk Nowitzki stigahæstur með 22 stig.

Toronto Raptors nýtti sér ekki heimavöllinn í oddaleiknum eins og Spurs og var sent í sumarfrí af Brooklyn Nets sem vann eins stigs sigur, 104-103, í æsispennandi leik í gær.

Joe Johnson var traustur að vanda í liði Brooklyn og skoraði 26 stig en hjá Toronto var Kyle Lowry stigahæstur með 28 stig.

Brooklyn mætir ríkjandi meisturum Miami Heat í undanúrslitum austurdeildar. Það er einvígi sem Miami-mönnum líst ekkert sérstaklega vel á þar sem Nets vann allar fjórar viðureignir liðanna á tímabilinu.

Í hinni undanúrslitaviðureigninni í austrinu mætast Indiana Pacers og Washington Wizards en í vestrinu mætast Oklahoma City og LA Clippers annars vegar og San Antonio Spurs og Portland Trail Blazers hinsvegar.

Í spilaranum hér að ofan má sjá brot af frammistöðu Tony Parkers í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×