Tony Parker svaf ekkert nóttina fyrir leikinn þegar hann varð pabbi í fyrsta sinn en það háði honum ekkert að því virtist í gær þegar hann skoraði 23 stig í 109-103 heimasigri San Antonio Spurs á móti Dallas Mavericks. Manu Ginobili skoraði 19 stig fyrir Spurs-liðið og þeir Tiago Splitter (17 stig og 12 fráköst) og Tim Duncan (16 stig og 12 fráköst) voru báðir með flottar tvennur. Vince Carter skoraði 28 stig fyrir Dallas en það dugði ekki til ekki frekar en stigin 26 frá Dirk Nowitzki.
Kyle Lowry setti nýtt persónulegt met í úrslitakeppni þegar hann skoraði 36 stig í 115-113 sigri Toronto Raptors á heimavelli á móti Brooklyn Nets. Toronto-liðið er þar með komið yfir í 3-2 í seríunni en vinna þarf fjóra leiki til þess að komast áfram í næstu umferð.
DeMar DeRozan var með 23 stig fyrir Raptors og Litháinn Jonas Valanciunas skoraði 16 stig. Joe Johnson var með 30 stig fyrir Brooklyn og Bosníumaðurinn Mirza Teletovic skoraði 17 stig.
Toronto Raptors var með yfirburðarforystu í hálfleik og 94-72 yfir þegar 11:23 mínútur voru eftir en Brooklyn-liðið skoraði þá 15 af 18 næstu stigum og kom sér inn í leikinn. Brooklyn skoraði alls 44 stig í fjórða leikhlutanum en tókst ekki að stela sigrinum.
Dwight Howard var með 22 stig og 14 fráköst og Jeremy Lin kom með 21 stig inn af bekknum þegar Houston Rockets vann 108-98 sigur á Portland Trail Blazers og minnkaði muninn í 2-3 í seríunni. Næsti leikur er í Portland og þar getur Trail Blazers aftur tryggt sér sæti í næstu umferð.
Wesley Matthews skoraði 27 stig fyrir Portland og Damian Lillard var með 26 en Houston-liðið hélt LaMarcus Aldridge í aðeins 8 stigum. LaMarcus Aldridge skoraði 35,3 stig að meðaltali í fyrstu fjórum leikjunum seríunnar.
Úrslit leikja í NBA-deildinni í nótt:
Austurdeildin, 1. umferð:
Toronto Raptors - Brooklyn Nets 115-113
(Toronto er 3-2 yfir, næsti leikur í Brooklyn á morgun)
Vesturdeildin, 1. umferð:
San Antonio Spurs - Dallas Mavericks 109-103
(San Antonio er 3-2 yfir, næsti leikur í Dallas á morgun)
Houston Rockets - Portland Trail Blazers 108-98
(Portland er 3-2 yfir, næsti leikur í Portland á morgun)