Nýjasta nafnið til að koma upp á borð hjá Utah Jazz er goðsögnin John Stockton. Stockton hefur verið lítið áberandi síðan að hann lagði skóna á hilluna árið 2003 eftir magnaðan feril.
Samkvæmt heimildum ESPN þá ætla forráðamenn Utah Jazz að reyna að plata John Stockton út í þjálfun en hann hefur enga reynslu af þjálfun. Margir litu þó á Stockton sem hálfgerðan þjálfara inn á gólfinu því hann stýrði leik Utah liðsins í langan tíma.
Utah Jazz hefur verið að sækja í menn frá gullaldarárum félagsins en Karl Malone vinnur nú sem einstaklingsþjálfari hjá félaginu og Jerry Sloan er nú ráðgjafi hjá Utah Jazz. Þessir tveir voru aðalmennirnir í besta liði í sögu Utah Jazz ásamt Stokcton.
Það efast enginn um að Stockton hafi þekkinguna og sigurhugarfarið til að þjálfa liðið en ólíklegt þykir þó að hann treysti sér í allt það fjölmiðlafár sem tengist því að þjálfa NBA-lið. Stockton hélt sér frá sviðsljósinu allan sinn feril og hefur lítið verið í fjölmiðlum þessi ellefu ár frá því að skórnir hans fóru upp á hillu.
John Stockton spilaði í 19 tímabil í NBA-deildinni og enginn leikmaður hefur gefið fleiri stoðsendingar eða stolið fleiri boltum á NBA-ferli sínum.
