Skoðun

Nýjar íbúðir fyrir hjúkrunarfræðinga í Vatnsmýrinni?

Kristbjörg Sveinbjörnsdóttir skrifar
Núna rétt fyrir kosningar lofar maðurinn sem flestir Reykvíkingar vilja sem næsta borgarstjóra ungum og öldnum ódýru húsnæði á komandi kjörtímabili. Samfylkingarskipstjórinn siglir milli vinnustaða í Reykjavík og lofar að reistar verði mörg þúsund íbúðir. Sömu loforð og hann gaf fyrir fjórum árum, en efndi ekki á kjörtímabilinu. Á fundum með starfsfólki LSH lofar hann nýjum spítala enda þótt hann viti að ekki hefur verið gengið frá fjármögnun spítalans. Þá slær hann ryki í augu starfsfólks spítalans og lætur að því liggja að það geti gengið í vinnuna úr nýju íbúðunum sem verði reistar í Vatnsmýri.

Eins og Degi B. Eggertssyni er kunnugt er starfsfólk Landspítalans ekki á borgarstjóralaunum. Í dag er fermetraverð nýs húsnæðis í miðbæ Reykjavíkur langt yfir hálfri milljón krónum. Dagvinnulaun hjúkrunarfræðinga á LSH eru nú að meðaltali um 400 þúsund og útborguð laun ná ekki 300 þúsund. Lítil íbúð í Vatnsmýrinni mun því ekki kosta undir 40 milljónum króna. Til þess að hjúkrunarfræðingur á LSH hafi efni á slíkri íbúð þarf hann að lágmarki að inna af hendi 8 milljónir í útborgun og taka lán upp á 32 milljónir. Dagur veit vel að það þarf meira en laun hjúkrunarfræðings til að greiða af slíku láni. Enda þótt Dagur og eiginkona hans geti gengið í vinnuna frá heimili sínu á Óðinsgötunni er ekki þar með sagt að það sama gildi um annað starfsfólk spítalans. Að minnsta kosti er ljóst að hjúkrunarfræðingar á LSH munu ekki ganga í vinnuna úr Vatnsmýrinni.

Framsóknarflokkurinn virðist einn flokka leggja áherslu á mikilvægi þess að halda áfram uppbyggingu í úthverfum borgarinnar, svo sem í Úlfarsárdal. Í Úlfarsárdal hefur Dagur B. Eggertsson hins vegar samþykkt nýtt aðalskipulag þar sem gert er ráð fyrir að í stað 3.000 íbúða byggðar verði aðeins 1.100-1.200 íbúðir.  Það þýðir að í stað 9.000-10.000 íbúa byggðar verða þar aðeins um 3.000 íbúar. Ég hvet starfsfólk LSH því til að veita Framsóknarflokknum atkvæði sitt á laugardaginn.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×