Spurs fylgdi eftir tapinu í leik tvö í San Antonio með að valta yfir Miami í leik þrjú í Miami. Leikurinn í nótt var endurtekning á leik þrjú þar sem Spurs leiddi nánast allan leikinn.
Miami leiddi þegar fimm mínútur voru búnar af leiknum en þá settu leikmenn Spurs í gír. Gestirnir frá San Antonio gengu frá Miami með öflugri vörn og góðri skotnýtingu í leiknum.
Spurs leiddi 55-38 í hálfleik og náðu leikmenn Heat aldrei að minnka muninn niður í eins stafa tölu í seinni hálfleik. Öruggur sigur Spurs staðreynd sem fer aftur til San Antonio með 3-1 forskot.
Aldrei hefur það gerst í 31 tilraunum að lið sem er undir 3-1 eftir fjóra leiki nái að snúa taflinu sér í hag í úrslitum NBA-deildarinnar. Verður verkefnið fyrir Miami ansi erfitt gegn jafn leikreyndu liði og Spurs sem dugar einn sigur í næstu þremur leikjum.
Kawhi Leonard fór á kostum í liði Spurs annan leikinn í röð með 20 stig ásamt því að taka niður 14 fráköst, þá bætti Tony Parker við 19 stigum í liði Spurs.
Í liði Miami var LeBron James atkvæðamestur með 28 stig en meðleikarar hans brugðust honum. Aðrir byrjunarliðsmenn í liði Heat skiluðu aðeins 28 stigum úr 34 skotum.