Franz Beckenbauer, heiðursforseti Bayern München, segir að þýski landsliðsmaðurinn Sami Khedira væri fullkominn viðbót við lið Bayern.
Miklar vangaveltur hafa verið um framtíð Khedira sem á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Evrópumeistara Real Madrid. Lið Arsenal hefur oftast verið nefnt sem líklegur áfangastaður miðjumannsins, en nú virðast þýsku meistararnir vera komnir inn í myndina.
Það hefur kvarnast úr hópi miðjumanna Bayern að undanförnu; Toni Kroos er farinn til Real Madrid, Javi Martinez verður frá í lengri tíma vegna slitins krossbands og Bastian Schweinsteiger mun einnig missa af byrjun tímabilsins vegna meiðsla.
Beckenbauer segir Khedira frábæran kost fyrir Bayern.
„Khedira passar inn í hvaða lið sem er,“ sagði Beckenbauer í samtali við Sport Bild.
„Hann er ótrúlega sterkur í stöðu varnarsinnaðs miðjumanns. Annað hvort við hlið Schweinsteiger eða Philipp Lahm. Það væri fullkomið.“
Bayern mætir Wolfsburg á föstudaginn í sínum fyrsta leik í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
