Innlent

37 útköll vegna vatnsleka

Atli Ísleifsson skrifar
Vatn flæddi inn í kjallara á horni Spítalastígs og Bergstaðastrætis fyrr í dag.
Vatn flæddi inn í kjallara á horni Spítalastígs og Bergstaðastrætis fyrr í dag. Vísir/Stefán
„Dagurinn er búinn að vera vægast sagt brjálaður,“ segir Þórður Bogason, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, en slökkvilið hefur þurft að sinna 37 útköllum vegna vatnsleka frá klukkan sex í morgun.

Þórður segir að flest útköllin hafi komið fram undir hádegi. „Við vorum að alveg til klukkan fjögur eða fimm að sinna þessum útköllum. Þar að auki sinnti slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu 25 sjúkraflutningum. Þetta er sem sagt búinn að vera ansi erilsamur dagur hjá okkur.“

Þórður segir það sem betur fer orðið rólegt núna. „Það eru engir dælubílar úti eins og er“, sagði Þórður upp úr klukkan sex í kvöld.

Að sögn snerust stór hluti útkallanna um mikinn leka. „Í öðrum tilfellum höfðu íbúar unnið gott verk þar sem við komumst ekki yfir þetta allt saman. Íbúar höfðu oft gert mikið áður en við komum svo þetta gekk allt upp fyrir rest.“

Þórður segir stærstan hlut útkallanna hafa verið í Túnunum í Reykjavík, en einnig verið í Árbænum, Vesturbænum og víðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×