Josh Gordon, einn af bestu útherjum NFL-deildarinnar sem leikur með Cleveland Browns, mun vinna sem bílasali á meðan tímabilinu stendur. Gordon tekur út þessa dagana eins árs keppnisbann vegna ítrekaðar maríjúananeyslu.
Gordon sem skaust fram í sviðsljósið á síðasta tímabili sem einn af bestu útherjum deildarinnar. Varð hann fyrsti útherjinn í sögu deildarinnar til þess að hlaupa yfir 200 jarda í tveimur leikjum í röð.
Gordon gældi við hugmyndina að leika í kanadísku ruðningsdeildinni í vetur en NFL-deildin var fljót að benda honum á að honum væri ekki heimilt að leika í öðrum deildum á meðan banninu stæði.
Samkvæmt heimildum ESPN hefur Gordon ákveðið að vinna sem bílasali næsta árið á meðan banninu stendur en NFL-deildin hefst innan skamms þegar Seattle Seahawks tekur á móti Green Bay Packers klukkan 00.30.

