Verið er að rannsaka upptökur af Danny Ferry, framkvæmdarstjóra Atlanta Hawks, vegna ummæla hans um Loul Deng, leikmann Miami Heat, á símafundi með eigendum Atlanta Hawks.
Deng sem varð samningslaus í sumar eftir að samningur hans við Cleveland Cavaliers rann út var í samningsviðræðum við Atlanta Hawks og Miami Heat á sama tíma en hann valdi á endanum að ganga til liðs við Miami.
Nú hefur komið í ljós að á símafundi með eigendum liðsins sagði Ferry þegar hann var beðinn um að lýsa Deng sem kemur upphaflega frá Súdan:
„Það er Afríkumaður í honum en ekki á slæman hátt. Hann er svona maður sem myndi líta út fyrir að vera með fallega og heiðarlega búð en hann selur þér falsaða hluti.“
Ferry baðst strax afsökunar í ljósi þessa en leikmenn hafa krafist þess að Ferry segi eftir af sér eða verði rekinn.
Eigendur Atlanta Hawks hafa staðfest að tekið hafi verið á málinu innanhúss og hafi Ferry fengið viðvörun en að hann hafi haldið starfi sínu.
