Innlent

Snælduvitlaust veður í Ólafsvík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Ólafsvík í morgun.
Frá Ólafsvík í morgun. Vísir/Þröstur Albertsson
Búist er við hvössum vindhviðum við fjöll suðvestan- og vestanlands í dag og fram eftir degi. Suðaustanáttin er versta áttin í Ólafsvík þar sem íbúar finna vel fyrir vindinum að sögn Þrastar Ólafssonar. Þar rignir líka eins og hellt sé úr fötu.

„Það hefur verið dálítið um suðlægar áttir undanfarið. Við höfum samt séð það svartara en þetta hérna,“ segir Þröstur og nefnir veðrið um liðna helgi sem dæmi.

Líkt og sjá má á myndbandinu að neðan sem Þröstur tók er varla stætt í Ólafsvík. Þar sést þakdúkur fjúka af einu húsi bæjarins. Þröstur segir þó stutt á milli skins og skúra. Hann var staddur á Rifi þegar blaðamaður heyrði í honum hljóðið.

„Úti á Rifi eru smá dropar. Meira að segja skín sólin annað slagið og regnboginn sýnir sínar bestu hliðar.“

Hvasst er víða um land og ástæða fyrir landsmenn að huga að lausamunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×