Innlent

Aftakaveður austur í Öræfum

Gissur Sigurðsson skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki.
Myndin tengist fréttinni ekki. vísir/vilhelm
Aftakaveður geisaði austur í Öræfum síðdegis í gær og fóru björgunarsveitarmenn um svæðið á tíu tonna bryndreka til bjarga fólki í vanda. Engan sakaði í hamförunum, sem voru einhverjar þær verstu í langan tíma, að sögn heimamanna.

Þeir komu meðal annars erlendu pari til hjálpar þar sem það sat bjargarlaust í bíl sínum skammt frá Skaftafelli, eftir að grjótfok hafði brotið tvær rúður í bílnum þannig að óveðrið buldi á þeim. Þau voru að vonum skelkuð en ómeidd að sögn Ármanns Guðmundssonar í björgunarsveitinni Kára. Þau voru vistuð á hótelinu í Skaftafelli.

Þá fauk dráttarvagn, sem var aftan í stórum flutningabíl, á hliðina í vindhviðu og þurfti að koma honum út af veginum.

Lítill rútubíll með tveimur mönnum um borð fauk svo á hliðina á þjóðveginum skammt frá Skaftafelli en hvorugan sakaði.  Og þegar björgunarsveitarmenn sáu smárútu, fulla af fólki koma á móti sér og stefna inn í mesta veðurofsann, stöðvuðu þeir rútuna og beindu fólkinu á hótelið í Skaftafelli.

Bæði Vegagerðin og Veðurstofan höfðu varað við mjög snörpum vindhviðum á þessu svæði í gær. Á meðan á þessu stóð í Öræfunum fóru björgunarmenn frá Höfn til að aðstoða erlenda ferðamenn sem sátu í föstum bíl sínum úti í á í grennd við bæinn Hoffell. Þegar björgunarmenn komu á vettvang var bíllinn mannlaus, en brátt kom í ljós að ferðamennirnir höfðu leitað húsaskjóls á næsta bæ og amaði ekkert að þeim.    






Fleiri fréttir

Sjá meira


×