Árlegar tekjur NBA-deildarinnar af samningnum verða um þrefalt hærri en núverandi sjónvarpssamningur gefur deildinni. Samningurinn nýi tekur gildi tímabilið 2016 – 2017. Hann mun hafa áhrif á launaþak liðanna í NBA-deildinni, því þakið er reiknað út frá tekjum deildarinnar. Þrátt fyrir að tilkynnt hafi verið um samninginn í morgun hefur það lengi legið fyrir að hann myndi færa deildinni auknar tekjur og þannig hafa áhrif á launaþakið. Þannig má til dæmis útskýra ákvörðun LeBron James að semja við Cleveland Cavaliers til tveggja ára útfrá þessum nýja sjónvarpssamningi.

Samningurinn er sem fyrr segir við TNT og ESPN, sem hafa sýnt leiki deildarinnar í Bandaríkjunum undanfarin ár. Talið var að sjónvarpsstöðin Fox Sports One myndi komast inn í samninginn og fá sýningarrétt á einhverjum leikjum. Svo varð ekki.
Ein helsta breytingin á fyrirkomulagi útsendinga verða beinar netútsendingar ESPN. Stöðin mun sýna nokkra leiki í beinni útsendingu í gegnum vefsíðu sína, en hingað til hefur ESPN sýnt leiki í gegnum áskriftasjónvarp.