FIBA Europe tilkynnti í dag hvenær verður dregið í riðla vegna Evrópumótsins í körfubolta á næsta ári en athöfnin fer fram mánudaginn 8. desember næstkomandi og verður haldin í París í Frakklandi.
Íslenska landsliðið í körfubolta tryggði sér eins og kunnugt þátttökurétt á EM í fyrsta sinn í ágúst og það bíða því margir spenntir eftir því hvar riðill Íslands muni fara fram og hvaða þjóðir verða með Íslandi í riðli.
Riðlakeppnin fer fram í fjórum löndum og íslenska landsliðið gæti spilað í Frakklandi, Króatíu, Þýskalandi eða Lettlandi.
Riðlakeppnin fer fram dagana 5.-12. september 2015 og úrslitaleikurinn verður 20. september.
Dregið í riðla á EM í körfu í París í desember
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
