Fótbolti

Lewandowski: Skotar okkar helsti keppninautur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lewandowski gekk til liðs við Bayern München frá Borussia Dortmund í sumar.
Lewandowski gekk til liðs við Bayern München frá Borussia Dortmund í sumar. Vísir/Getty
Pólski framherjinn Robert Lewandowski hefur varað landa sína við ofmati eftir 2-0 sigur Póllands á Þýskalandi á sunnudaginn í D-riðli undankeppni EM 2016.

Þetta var fyrsti sigur Póllands á Þýskalandi í 19 tilraunum, en Aradiusz Milik og Sebastian Mila skoruðu mörkin í 2-0 sigri á Stadion Narodowy í Varsjá.

Pólverjar taka á móti Skotum í sínum þriðja leik í riðlinum á morgun. Lewandowski, sem leikur með Bayern München, segir að leikurinn sé gríðarlega mikilvægur.

„Við unnum sögulegan sigur gegn Þýskalandi, en við fengum bara þrjú stig. Ef við töpum á móti Skotlandi fáum við aðeins þrjú stig út úr tveimur leikjum sem er ekki nógu mikið,“ sagði markahrókurinn.

„Það er ekkert leyndarmál að Þýskaland mun vinna riðilinn auðveldlega, en Skotar eru okkar helsti keppinautur um annað sætið í riðlinum. Þess vegna er mikilvægt að vinna leikinn á morgun.“

Zbigniew Boniek, forseti pólska knattspyrnusambandsins og fyrrverandi leikmaður, tók undir með Lewandowski.

„Það voru nokkrir einstaklingar sem stóðu sig frábærlega gegn Þýskalandi og hinir leikmennirnir börðust hetjulega fyrir stigunum. En nú er komið að Skotaleiknum. Leyfum stuðningsmönnunum að njóta sigursins á laugardaginn, en leikmennirnir hafa ekki tíma fyrir það,“ sagði Boniek, sem skoraði 24 mörk í 80 landsleikjum, og bætti við:

„Við megum ekki halda að við séum orðnir frábærir, því við erum það ekki. Við verðum að vera auðmjúkir og einbeita okkur að leiknum erfiða gegn Skotlandi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×