Nýliðinn Julius Randle fótbrotnaði í fjórða leikhluta í 90-108 tapi fyrir Houston Rockets en Lakers valdi hann númer sjö í nýliðavalinu í sumar.
Julius Randle er 19 ára gamall og braut sköflunginn í hægri fæti þegar hann lenti á tveimur leikmönnum Houston-liðsins undir körfu Lakers.
Randle var valinn nýliði ársins í SEC-deildinni í bandaríska háskólaboltanum á síðustu leiktíð og fór fyrir skólaliði Kentucky-háskólans sem fór alla leið í úrslitaleikinn.
Julius Randle var fluttur á sjúkrahús og eftir leikinn staðfesti þjálfarinn Byron Scott að Julius Randle væri fótbrotinn og þyrfti að fara í aðgerð.
Lakers er því búið að missa leikstjórnandann Steve Nash og nýliðann Julius Randle á stuttum tíma og þetta verður því enn erfiðara fyrir Kobe Bryant og félaga sem þykja ekki líklegir til að komast í úrslitakeppnina næsta vor.
