Drogba skoraði markið úr vítaspyrnu stuttu eftir að hann kom inná fyrir Loic Remy sem meiddist snemma leiks. Loic Remy var þá þegar búinn að koma Chelsea í 1-0.
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, ætlaði þó aldrei að leyfa Drogba taka vítaspyrnu í þessari stöðu.
„Það kom mér á óvart að Hazard lét Drogba hafa boltann og ég var ekkert sérstaklega ánægður með það. Ég á að ráða þessu og Hazard er vítaskytta númer eitt hjá liðinu. Þetta gekk samt upp og ég get verið ánægður með það," sagði Jose Mourinho við BBC eftir leikinn.
Didier Drogba varð í gær fyrsti varamaðurinn frá 2005 sem skorar svona snemma í leik en markið hans kom á 22. mínútu leiksins.
„Ég vildi skora þetta mark. Ég spurði Hazard hvort það væri í lagi og hann lét mig fá boltann. Svona er bara stemmningin í liðinu. Við dreifum mörkunum á milli okkar," sagði Didier Drogba eftir leikinn.