Körfubolti

Stórleikur James Harden í sigri Houston | Myndbönd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
James Harden í leiknum í nótt.
James Harden í leiknum í nótt. Vísir/AP
Houston gerði góða ferð til Philadelphia í NBA-deildinni í nótt og vann heimamenn, 104-93. James Harden átti stórleik og skoraði 35 stig auk þess að taka níu fráköst.

Dwight Howard bætti við ellefu stigum og tók þar að auki fjórtán fráköst fyrir Houston sem hefur unnið alla fjóra leiki sína til þessa á tímabilinu. Philadelphia hefur hins vegar tapað öllum sínum fjórum leikjum.

Trevor Ariza setti niður sex þrista í leiknum en alls nýtti Houston sextán af 34 þriggja stiga skotum sínum.

Brooklyn vann Oklahoma City, 116-85, þar sem Brook Lopez spilaði í fyrsta sinn síðan í desember í fyrra. Hann skoraði átján stig, rétt eins og Alan Anderson.

Kevin Durant og Russell Westbrook eru báðir frá vegna meiðsla hjá Oklahoma City en þar að auki missti liðið Andre Roberson af velli með tognun snemma í leiknum. Reggie Jackson spilaði þó sinn fyrsta leik á tímabilinu og skoraði 23 stig.

Memphis vann New Orleans, 93-91, og þar með sinn fjórða leik í röð en liðið hefur aldrei byrjað betur en nú. Marc Gasol var með sextán stig og Zach Randolph fimmtán.

LA Clippers vann Utah, 107-101. Blake Griffin skoraði 31 stig og Jamal Crawford nítján en sá síðarnefndi komst þar með yfir fimmtán þúsund stig á ferlinum sínum.

Úrslit næturinnar:

Philadelphia - Houston 93-104

Brooklyn - Oklahoma City 116-85

Memphis - New Orleans 93-81

Dallas - Boston 118-113

Denver - Sacramento 105-110

LA Clippers - Utah 107-101

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×